154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á í lokin, við verðum kannski ekki sammála um það. Ég er nefnilega þeirrar skoðanir að markaðurinn eigi að ráða og við erum líka ósammála um það að þegar fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem um ræðir, kaupir aðgengi að náttúruauðlind í gegnum uppboð, það er ekki skattheimta. En við tökum það samtal kannski síðar.

Ég ætla reyndar í ljósi þess — af því að hv. þingmaður svaraði, og ég þakka svarið því að það er gott innlegg í þessa vinnu, að það væri jafnvel orðið of seint — að minna á að í Noregi þar sem fiskeldi hefur verið stundað frá 1960 fóru menn að selja lífmassa á uppboði árið 2018.

Mig langar til að spyrja þingmanninn að öðru, tengt gjaldtöku þó. Það kemur fram að sú gjaldheimta sem stefnt er að samkvæmt frumvarpinu sé annars vegar hugsuð sem beint endurgjald vegna kostnaðar við stjórnsýslu og annað, líka til innviðauppbyggingar í viðkomandi sveitarfélögum og svo er talað um að það eigi að beita þessu gjaldi sem hagrænum hvötum til að lágmarka umhverfisáhrif og auka dýravelferð. Ég er þeirrar skoðunar að þessi tvö markmið eigi að vera sjálfgefin. Ef fyrirtæki sem hafa hug á að vera samkeppnisfær í mjög öflugum og miklum samkeppnisrekstri á alþjóðavísu, ef þau ætla sér að ná ekki bara einhverju forskoti þar, ef þau ætla sér að vera leikendur í þeirri miklu samkeppni sem þar ríkir, þá munu þau sjálf uppfylla þetta tvennt. Þurfum við að beita einhverri sérstakri gjaldtöku sem fjárhagshvötum í þá átt? Erum við í alvöru þar að það þurfi að beita gjaldinu þar? Með öðrum orðum, af því að hin hliðin á þeim peningi er að ef fyrirtæki uppfylla þessar skyldur, þau sinna dýravelferð og þau sinna umhverfisskyldum sínum, á þá að lækka gjaldið sem þau greiða? Mér finnst þetta bara svo sérstakt. Ég hefði áhuga á að heyra frá hv. þingmanni, sem þekkir þessa atvinnugrein miklum mun betur en ég: Ef þau ætla sér að standa sig í samkeppninni, er þetta ekki eitt af þeim lykilþáttum sem skipta þar máli? (Forseti hringir.) Er ekki vitneskja neytenda almennt, ekki bara á Íslandi heldur almennt, orðin sú að þetta sé eitt af því sem þarf til að skapa sér sterka stöðu á markaðnum?